Iðjan, vinnustofa og iðjuþjálfun

Vorið 2010 var aðstaða Iðjunnar, vinnustofu, fullgerð og tekin í notkun í gamla húsinu á Fellsenda. Iðjuþjálfi sér um skipulagningu, ásamt starfsmönnum í félagsstarfi, á afþreyingu innan heimilisins og utan þess. Boðið er upp á ýmiskonar virkni/handverk og er reynt að koma til móts við alla. Einnig eru skipulagðar árstíðabundnar afþreyingar s.s. þorrablót, páskaskrautsgerð/páskabingó, jólabakstur, jólahlaðborð og margt fleira.
Iðjan skipuleggur þemadaga sem eru í hverjum mánuði yfir veturinn og eru íbúar hvattir til að taka þátt í þessum dögum.

Mikilvægt er að allir fái tækifæri til að stunda þá iðju sem skiptir þá máli og hefur þátttaka einstaklingsins síðan jákvæð áhrif á heilsu og vellíðan hans. Markmið félagsstarfsins er að auka virkni íbúanna, koma í veg fyrir einangrun þeirra, örva þá í samskiptum og létta þeirra lund.

Það er alltaf heitt á könnunni í iðjunni og er gott að koma og fá sér kaffisopa, þó það væri ekki nema bara til að breyta um umhverfi og spjalla.

Ferðir í Búðardal eru farnar að jafnaði hálfs mánaðarlega með þá heimilismenn sem það vilja.

Þegar sækja þarf um eða kaupa hjálpartæki fyrir íbúa þá sér iðjuþjálfi um það í gegnum Sjúkratryggingar Íslands eða kaupir þau beint af söluaðilum hjálpartækja.

Iðjuþjálfi er Ingibjörg Anna Björnsdóttir (Bjögga Björns) og starfsmenn í félagsstarfi eru Fanney Kristjáns og V. Ása Fossdal.