Image

Hjúkrunarheimilið að Fellsenda hóf starfsemi þann 25. apríl árið 1968. Heimilið var stofnað fyrir gjafafé Finns Ólafssonar stórkaupmanns frá Fellsenda og gaf hann jörð sína og fjármuni í þessum tilgangi. Stofnaði hann minningarsjóð um foreldra sína sem heitir Minningarsjóður hjónanna Ólafs hreppstjóra Finnssonar frá Fellsenda og konu hans Guðrúnar Tómasdóttur.

Skipulagsskrá sjóðsins var gerð árið 1960 og birt í B-deild stjórnartíðinda. Í henni kemur fram að "sjóðnum skuli varið til þess að reisa og reka elli- og hjúkrunarheimili fyrir Dalasýslu. Þegar sýnt þykir að sjóðurinn ásamt öðrum framlögum, er honum kunna að berast, er orðinn það efnum búinn að honum er fært að reisa hús yfir vistmenn og starfsfólk heimilisins og getur staðið undir nauðsynlegum rekstarkostnaði, skal hafist handa um að reisa þetta dvalarheimili gamalmenna. Skal reisa það í landi jarðarinnar Fellsenda, þar sem hagfeldast þykir".

Fljótlega kom í ljós að vegna fjarlægðar reyndist ekki eftirspurn eftir almennum dvalarrýmum fyrir aldraða Dalamenn, heldur var farið að taka við öldruðu fólki með alvarlega geðsjúkdóma. Hafa heimilismenn fyrst og fremst komið frá Landsspítala Háskólasjúkrahúsi, geðsviði og eru öll rýmin skilgreind sem hjúkrunarrými.

Starfsemin flutti í nýtt og glæsilegt 1480 fermetra húsnæði á einni hæð í október 2006. Við flutninginn varð gjörbreyting á aðbúnaði heimilisfólks og vinnuaðstöðu starfsfólks ásamt því að hjúkrunarrýmum fjölgaði úr 17 í 27.

Í dag eru 27 heimilismenn á Fellsenda og starfsfólk er um 40 talsins í misjöfnu starfshlutfalli.