Starfsemi og þjónusta

Eldhús
Á Fellsenda er allur matur matreiddur í eldhúsi heimilisins. Reynt er að halda í gamlar hefðir en einnig er leitast við að framreiða fjölbreyttan og hollan mat í samræmi við markmið Lýðheilsustöðvarinnar.

Matmálstímar:
Morgunverður:   kl.  09:00
Hádegisverður:  kl. 12:00
Síðdegiskaffi:     kl. 15:00
Kvöldverður:      kl. 17:30
Kvöldkaffi:          kl. 21:00 

Guðþjónusta
Heimilið er í samstarfi við sr. Snævar Jón Andrjesson, sóknarprest í Dalaprestakalli, og kemur hann í heimsókn að jafnaði, einu sinni í viku og ræðir við íbúa heimilisins. Hann hefur einnig komið við ýmis önnur tilefni.  

Heimsóknir
Heimsóknartími er frjáls að því marki að það trufli ekki íbúa eða starfsmenn heimilisins. Húsið er opið kl.08:00-22:00. 

Hjúkrun
Á heimilinu starfa hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar og aðstoðarfólk við hjúkrun og umönnun heimilismanna allan sólarhringinn með vellíðan og öryggi þeirra að leiðarljósi. Áhersla er lögð á að hjúkra heimilismönnum í notalegu og heimilislegu umhverfi sem þeir þekkja og treysta. Markmiðið er að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur. Umhyggja fyrir einstaklingnum og leiðir til sjálfshjálpar er ávallt til grundvallar. Áhersla er lögð á góð samskipti. 

Íbúafundir
Íbúafundir eru haldnir reglulega þar sem íbúar geta komið fram með sínar hugmyndir sem snúa að lífi á heimilinu hvort sem það eru ýmsir viðburðir, matseðillinn eða sumarferðirnar. Fundarritari skráir allt hjá sér og er síðan farið yfir hvað er hægt að framkvæma og hvað ekki. Þetta hefur gengið vel og fjölgar reglulega íbúunum sem mæta á fundina til að koma sínum skoðunum á framfæri. 

Iðjuþjálfun – Iðjan vinnustofa og félagsstarf
Í Iðjunni vinnustofu starfar iðjuþjálfi ásamt aðstoðarkonu. Markmið iðjuþjálfunar og vinnustofunnar er að viðhalda og bæta líkamlega, félagslega og andlega færni íbúanna. Iðjuþjálfinn leggur áherslu á að efla virkni íbúans við iðju sem vekur áhuga en veitir einnig gleði og lífsfyllingu. Starfsmenn Iðjunnar leitast við að grípa tækifærin sem gefast til að gera daginn innihaldsríkari og skemmtilegri.  

Iðjan vinnustofa er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl.10-11:30 og 13-14:30. 

Auk vinnustofu eru ýmsir viðburðir haldnir svo sem bingó, þemadagar, þorrablót, hrekkjavaka, jólahlaðborð og ýmsilegt fleira sem starfsmönnum Iðjunnar dettur í hug.
Á sumrin er farið í dagsferðir í fámennum hópum. 

Læknisþjónusta
Heilsugæslulæknar í Búðardal veita almenna læknisþjónustu á Fellsenda. Þeir hafa fastan viðverutíma á Fellsenda á fimmtudagsmorgnum en þá funda þeir með hjúkrunarfræðingum, ganga stofugang og hitta þá íbúa sem þurfa þykir eða sem óskað hafa eftir læknisviðtali. Læknir er alltaf á bakvakt og veitir starfsfólki ráðgjöf í síma eða kemur í vitjun ef þörf krefur. Heilsugæslulæknir hefur milligöngu um að leita til annarra sérfræðinga þegar ástæða er til.
Þegar íbúi þarf að fara í reglubundið eftirlit til augnlæknis eða tannlæknis er farið í Búðardal.  

Paradísarheimt – verslun
Leitast er við að hafa vöruúrvalið sniðið að þörfum og óskum viðskiptavina og má þar helst nefna hreinlætis- og snyrtivörur fyrir líkama, hár og andlit.  

Opnunartími er frá kl.11:30-12 á miðvikudögum. 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV)
Hjúkrunarheimilið Fellsendi er aðili að SFV (https://samtok.is/). Samtökin voru stofnuð 24.apríl 2002 á Hrafnistu í Reykjavík og eru hagsmunasamtök aðildarfélaga sem starfa við velferðarþjónustu og eru ekki ríkisfyrirtæki. 

Sjálfboðaliðar
Heimilið hefur verið einstaklega lánsamt þegar kemur að velvilja sjálfboðaliða. Til okkar hafa til dæmis komið kórar, harmonikkuspilarar og ýmsir einstaklingar með upplestur úr bókum. Við bendum öllum þeim sem vilja koma sem sjálfboðaliðar (og t.d. spila við íbúa, spjalla eða vera með upplestur), að hafa samband við Bjöggu Björns, iðjuþjálfa (bjogga@fellsendi.is) til að fá frekari upplýsingar. 

Snyrtistofur
Katrín Lilja Ólafsdóttir fótaaðgerðarfræðingur kemur einu sinni í viku, yfirleitt á fimmtudögum.
Hafdís Ösp Finnbogadóttir hársnyrtir kemur á ca. 6 vikna fresti.
Þórunn Elva Þórðardóttir snyrtifræðingur kemur á ca. 7 vikna fresti og sér um handsnyrtingu. 

Tryggingar
Lágmarkstryggingar eru teknar vegna innbús heimilisfólks. Íbúar þurfa sjálfir að tryggja önnur verðmæti ef þeim finnst ástæða til. 

Þagnarskylda
Samkvæmt lögum hvílir þagnarskylda á starfsfólki heimilisins en einnig er beðið um að heimsóknargestir/aðstandendur virði einkalíf annara íbúa og ræði ekki það sem þeir sjá eða heyra við aðra. Ekki er heimilt að taka ljósmyndir eða upptökur af öðrum íbúum eða starfsfólki Fellsenda án leyfis. Slíkt varðar við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 

Þvottahús
Á Fellsenda er starfrækt þvottahús þar sem allur fatnaður íbúa, starfsmannafatnaður og annað lín er tilheyrir starfseminni er þvegið. Allur fatnaður er merktur með númeri sem hver íbúi fær úthlutað við komu sína á Fellsenda.