1.desember var mikil veisla hjá okkur þar sem Einar hélt upp á sitt 58 ára afmæli og Kvenfélagið Fjóla hélt sitt margrómaða aðventukaffi. Kirkjukórinn kom og söng nokkur lög undir stjórn Sigurbjargar Kristínardóttur.
Verslunin Hjarta mitt
Vala hjá versluninni Hjarta mitt, kom aftur til okkar (23.nóv) og þjónustaði okkar fólk. Frábært að fá svona góða þjónustu þar sem það eru ekki allir sem komast að heiman til að versla. https://hjartamitt.is/
Steinka syngur og spilar!
Við erum lánssöm að fá hana Steinku til okkar að spila og syngja. Hún nær vel til íbúanna og fær ólíklegasta fólk til að syngja með 😉
Gaman að prófa eitthvað nýtt!
Það var gaman að sjá að keppnisskapið er enn víða sem og hvatning til annarra. Við prófuðum nýja hreyfingu/keppni í dag og fannst mörgum þetta ákaflega forvitnileg „íþrótt“. Það þarf oft ekki að vera flókin athöfn sem gleður.
19.nóv – Alþingiskosningar á Fellsenda
Það var góð þátttaka í kosningunni í dag og gaman að sjá að margir nýttu kosningarétt sinn þegar starfsmenn frá Sýslumanni Vesturlands komu í hús.
Smíðavinna
Nokkrir íbúar hafa verið að koma í iðjuna – vinnustofu til að smíða. Á myndunum hér fyrir neðan er að sjá bæði löng skóhorn og skóþræla sem og hann Halldór G sem vinnur við tifsögina.
Grænn þemadagur
Eins og gengur og gerist hjá okkur, þá er amk einn þemadagur í mánuði og varð GRÆNN fyrir valinu í dag 😉 Eitthvað var nú lítið um myndatöku en það náðist þó ein mynd af skrautinu okkar og að sjálfsögðu fólkinu okkar líka.
Daníela 63 ára afmæli
Í dag, 11.nóvember, á Daníela okkar 63ja ára afmæli. Við fögnuðum því með henni og gæddum okkur á dýrindis brauðtertu. Við óskum Daníelu innilega til hamingju með daginn sinn 🙂
Matreiðslunámskeið
Íbúum var boðið að taka þátt í matreiðslunámskeiði og er hvert námskeið 4 skipti. Hér er að sjá myndir af fyrsta hópnum. Það var gaman að fylgjast með þeim takast á við þetta verkefni og skemmtu þau sér vel og voru áhugasöm. Í þessum tíma elduðu þau ofnbakaðan lax og hrísgrjón.
Hrekkjavaka
Við héldum upp á hrekkjavöku og það með stæl. Húsið varð alveg hræðilega óhugnanlegt og margir fóru í búning. Talsvert af skrautinu bjuggu íbúarnir til í iðjunni – vinnustofu og voru þau auðvitað mjög stolt.