Siðareglur sjúkraliða

SIÐAREGLUR SJÚKRALIÐA

Í starfi sjúkraliða felst að veita umönnun, aðstoð og endurhæfingu þeim, sem vegna sjúkdóma, öldrunar eða fötlunar eru ekki færir um að framkvæma athafnir daglegs lífs. Sjúkraliði ver meginhluta starfstíma síns í návist skjólstæðinga sinna og hefur hagsmuni þeirra ávallt að leiðarljósi.

· Sjúkraliði rækir starf sitt af alúð, samviskusemi og trúmennsku og í fullu samræmi við þau hjúkrunarmarkmið sem sett hafa verið.

· Sjúkraliði virðir rétt skjólstæðinga og rækir störf sín óháð sjúkdómsgreiningu, þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, aldri, kynferði, skoðunum og þjóðfélagsstöðu.

· Sjúkraliði gætir trúnaðar við skjólstæðinga og sýnir fyllstu þagmælsku um einkamál þeirra.

· Sjúkraliði leitar samráðs við viðeigandi aðila telji hann að á rétt skjólstæðinga sé gengið. Hann stuðlar að því í samvinnu við aðrar stéttir að skjólstæðingur (eða aðstandendur hans) sé upplýstur um rétt sinn.

· Sjúkraliða ber að viðhalda faglegri þekkingu sinni eins og kostur gefst.

· Sjúkraliði leggur sitt af mörkum til bættrar heilsuverndar.

· Sjúkraliði gætir virðingar stéttar sinnar innan starfs sem utan.

· Sjúkraliði skal aldrei ræða með lítilsvirðingu um skjólstæðinga sína, samstarfsmenn eða vinnustað.

· Sjúkraliði stuðlar að góðu samstarfi innan stéttar sinnar og tekur þátt í félagsstarfi sem vinnur að bættum hag hennar.

· Sjúkraliði rækir samvinnu við samstarfsstéttir og gagnrýnir þær ekki í áheyrn skjólstæðinga.

Félagar skulu kynna sér ákvæði reglna þessara og leitast við að fylgja þeim í starfi. Siðanefnd félagsins endurskoðar reglur þessar og fjallar um meint brot á þeim. Í starfi sínu ber sjúkraliðum einnig að hlíta þeim reglum og skyldum sem landslög segja til um.