Við skruppum heldur betur í lengri bíltúr í dag en síðustu daga því leið okkar lá í Borgarfjörðinn. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða í Baulunni/Esjuskálanum og þar var síðan tekin sú ákvörðun að keyra aðeins um þar sem ekki allir höfðu séð þetta svæði áður. Þá lá leið okkar að Deildartunguhver/Kraumu þar sem við skoðuðum aðeins svæðið. Þaðan brunuðum við í gegnum Kleppjárnsreyki (með smá stoppi að skoða framkvæmdir sem eru þar í gangi) og með skyndiákvörðun á vegamótum, þá fórum við inn að Hvanneyri líka. Þar keyrðum við aðeins um og göntuðumst með að skrá okkur öll í Landbúnaðarháskólann 🙂 Þegar við vorum búin að skoða Hvanneyri var stefnan tekin á Borgarnes þar sem þurfti að fylla bílinn af eldsneyti til að geta haldið áfram 😉 Þegar allir voru búnir að rétta úr sér og fá sér ferskt loft þá héldum við ótrauð áfram og lá leið okkar beinustu leið heim í Dalina.
Þetta var skemmtileg ferð þar sem margt var skoðað og rætt. Fáar myndir voru teknar að ósk ferðalanganna en við þökkum þeim kærlega fyrir samfylgdina.