Við komu á hjúkrunarheimilið er tekið á móti íbúanum og honum fylgt inn á herbergi sem hann fékk úthlutað. Þá er farið yfir helstu atriði líkt og tímasetningu á matartímum, virkni hjúkrunarkallkerfisins, staðsetningu vaktherbergis og fleiri nauðsynlegar upplýsingar.
Ýmsar tilfinningar fylgja því að flytja inn á hjúkrunarheimili hvort sem það er léttir, gleði, sorg, áhyggjur eða óvissa og eru þetta allt eðlilegar tilfinningar við þetta stóra skref. Starfsmenn hjúkrunarheimilisins gera sitt besta við að aðstoða íbúann við að vinna úr þeim tilfinningum sem upp koma við flutninginn.
Herbergi:
Íbúi og aðstandendur eru hvattir til að koma með hluti að heiman til að gera herbergið heimilislegt og persónulegra. Gæta þarf þess þó að fylla ekki rýmið svo mikið að það valdi erfiðleikum við að komast um og torveldi hjúkrun og umönnun.
Í öllum herbergjum er hjúkrunarrúm, náttborð, skrifborð, stóll og fataskápur. Einnig er sér baðherbergi með sturtu.
Bæði vegna byltuhættu og þrifa er ekki ætlast til að mottur séu á gólfum. Íbúinn getur kallað á aðstoð úr herbergi sínu hvenær sem er með sérstöku hjúkrunarkallkerfi.
Óvæntar aðstæður geta skapast þar sem nauðsynlegt er að flytja íbúa í annað herbergi og er það þá gert í samráði við hann.
Við andlát, ber aðstandendum að rýma herbergi eins fljótt og auðið er, þó ekki síðar en 5 dögum eftir andlát. Ef aðstandendur komast ekki til að sækja eigurnar verða þær teknar saman og sendar/fargað á kostnað íbúans/aðstandenda.
Tengiliðir og talsmaður íbúa:
Hver og einn íbúi fær tengilið, starfsmaður heimilisins, og getur íbúinn leitað til hans. Tengiliður sér meðal annars um að gera extra þrif í herbergi t.d. fyrir jólin og sér um að spariföt séu hrein og passi (ef kaupa þarf ný þá hefur tengiliður samband við aðstandendur og biður um aðstoð í þeim málum).
Nauðsynlegt er að nánustu aðstandendur tilkynni deildarstjóra eða hjúkrunarfræðingi um breytt símanúmer, heimilisfang/netfang hjá sér svo heimilið sé ávallt með nýjustu upplýsingar ef eitthvað kemur uppá.
Talsmaður íbúa er V. Ása Fossdal og geta íbúar, sem það vilja, fengið aðstoð hjá henni með ýmis mál sem upp koma hjá þeim.
Heimsóknir og ferðalög:
Aðstandendur eru ávallt velkomnir í heimsókn og er kærkomið að þeir veiti tilbreytingu í formi t.a.m. gönguferða, bílferða eða fjölskylduboða. Aðstandendum er að sjálfsögðu hjartanlega velkomið að koma með veitingar, hvort sem er á afmælisdögum íbúa eða við önnur tilefni og njóta annað hvort inni hjá íbúa eða í sameiginlegu rými (í samráði við starfsfólk).
Íbúi er að sjálfsögðu frjáls sinna ferða með sínum nánustu og getur dvalið að heiman í lengri eða skemmri tíma en ef um langan tíma er að ræða þá þurfa aðstandendur að ræða við deildarstjóra svo hægt sé að undurbúa lyf og annað tilfallandi fyrir brottför.
Reykingar:
Af öryggisástæðum er þess óskað að íbúar sem reykja geri það ekki á herbergjum sínum, starfsfólk aðstoðar íbúa að finna þar til gert reykherbergi. Einnig er hægt að reykja utandyra og er íbúum þá bent á stubbahúsin.
Áhöld og vörur til persónulegra nota:
Íbúinn þarf sjálfur að koma með þær snyrtivörur sem hann þarfnast til persónulegra nota t.d. tannbursti, tannkrem, rakáhöld, sjampó, líkamskrem, hárbursti, naglaklippur og rafhlöður í heyrnatæki. Hjúkrunarheimilið sér fyrir lyfjum og hjúkrunarvörum eftir þörfum hvers og eins.
Öryggisatriði:
Vegna eldhættu er ekki heimilt að vera með lifandi kertaljós á heimilinu.
