Líkt og undanfarin ár var haldið upp á Fjölskylduhátíð Fellsenda þar sem aðstandendum og vinum var boðið að koma og njóta dagsins með okkur.
Karlakórinn Söngbræður kom og söng fyrir okkur nokkur vel valin lög og mætti segja að það sé komin hefð á að fá þá ágætu menn til okkar. Þeir vekja alltaf mikla lukku hjá okkar fólki.
Bjarni Lárus Hall var einnig fenginn til að koma og spila á gítar og syngja. Hann var með samsöng og var ekki verra að hafa heilan karlakór í salnum til að taka undir þó svo aðrir hafi einnig sungið hátt með. Inn á milli gesta leyndist síðan annar tónlistarmaður, en hann er barnabarn íbúa hjá okkur, sem Bjarni fékk til að taka eitt lag. Sá ungi maður heitir Ketill Ágústsson og spilaði lagið Stál og hnífur, en hann söng einmitt það lag í sýningunni Níu líf.
Aldrei hefur verið jafn fjölmennt á hátíðinni okkar og var fullt út úr dyrum.
Eins og von var á að þá framreiddu eldhússtarfsmenn þvílíkar kræsingar í tilefni dagsins og reiknum við með að enginn hafi farið svangur heim.
Við viljum þakka öllum sem sáu sér fært að koma og taka þátt á þessum hátíðisdegi okkar.