Í dag, 26.júní, héldum við áfram að gera okkur glaðan dag og var för okkar heitið í Dalahyttur Hörðudal. Þar tók vertinn á móti okkur með dýrðlegum kaffiveitingum eins og þeim er von og vísa. Öllum öðrum ólöstuðum þá vorum við sammála um að þetta voru bestu vöfflur sem við höfum smakkað hingað til.
Vor/sumarferðir hafnar
Fyrstu vor/sumarferðirnar voru farnar í dag, 25.júní, aðeins seinna en oft áður. Fyrri ferð dagsins var farin á Vínlandssetrið og gæða okkur á gómsætum súpum og brauði. Seinni ferð dagsins var farin í Sælukotið Árblik þar sem við fengum dýrindis kaffiveitingar. Það er enginn svikinn af því að kíkja á veitingastaði/kaffihús Dalabyggðar (https://www.west.is/en/destinations/towns-regions/visit-dalir/dalir-food-and-drink)
Þjóðhátíðardagur Íslands
Hæ hó jibbý jey!! Upp er runninn Þjóðhátíðardagur Íslands, 17.júní. Sá dagur er haldinn hátíðlega um land allt og var skroppið, með þá sem það vildu, í Búðardal til að sjá hátíðarhöldin þar. Myndirnar tala sínu máli.
Þröstur 61 árs
Hamingjusamur maður vaknaði að morgni 16.júní og var búinn að bíða spenntur eftir afmælisdeginum sínum. Þröstur okkar á afmæli í dag!! hann var búinn að biðja um bleika og hvíta köku með dýrum á. Ekki stóð á eldhúsinu að uppfylla þá ósk. Við óskum Þresti innilega til hamingju með daginn sinn 🙂
Andrés Þór 61 árs
Í gær, 9.júní, átti Andrés Þór afmæli og var að sjálfsögðu haldið upp á það. Hann virtist hinn hressasti með daginn og fékk hann nýbakaðar vöfflur með ís í tilefni hans. Við óskum Andrési innilega til hamingju með daginn 🙂
Rut skrapp af bæ
Í dag gerði Rut Jenny sér glaðan dag og skrapp í heimsókn í Vífilsdal, Hörðudal, til að skoða lömbin. Skemmtileg ferð sem er henni ofarlega í huga og þakkar hún Herði og Elínu (starfsmönnum Fellsenda) kærlega fyrir heimboðið.
Anna Þóra 57 ára
Stutt er á milli hátíðisdaga hjá okkur og var einn slíkur þann 30.maí þegar Anna Þóra okkar átti afmæli. Hún varð 57 ára og var heldur betur búin að ákveða hvað hún vildi bjóða upp á með kaffinu en það var peruterta. Hún fékk góða heimsókn og naut dagsins. Við óskum Önnu Þóru innilega til hamingju með daginn sinn.
Ingibjörg 49 ára
Þann 27.maí sl. átti Ingibjörg afmæli og varð hún 49 ára. Hún vildi fá merkta köku og að sjálfsögðu fékk hún eina slíka enda keppast eldhússtarfsmenn við að koma til móts við þarfir okkar íbúa. Við óskum Ingibjörgu innilega til hamingju með daginn sinn 🙂
Kiðlingar í heimsókn
Við fengum skemmtilega heimsókn frá Sauðafelli, 19.maí, en það voru kiðlingarnirnir Halla Hrund og Jóhanna 🙂 Eins og gefur að skilja þá vakti þessi heimsókn mikla lukku hjá hópnum. Við þökkum Sauðafellsbændum kærlega fyrir að hugsa til okkar.
Allt er betra með glimmeri ;)
Eins og tíðkast hefur hjá okkur síðast liðin ár, þá höfum við ýmsa þemadaga. Í dag, 14.maí, vorum við með glimmerdag. Hver elskar ekki glimmer 😉 Eitthvað var lítið um myndatöku en þó náðust þessar. Það er alltaf gaman þegar það verður eitthvað uppbrot þó það sé ekki mikið.